laugardagur, 23. apríl 2016

-rjómakennt spínat og avocado pasta-


Ég elska spaghettí og pasta. 

Þegar ég greindist með ofnæmi fyrir hveiti þá eiginlega lagði ég pasta og spaghettí á hilluna og hef lítið borðað af því síðan. Ég hins vegar fékk allt í einu mikla löngun í gott spaghettí fyrr í vikunni og ákvað að prufa eitthvað nýtt. Mig hlakkaði mikið til að prufa þetta og stóðst þessi uppskrift svo sannarlega undir væntingum. Þetta var ofsalega gott. Það er enginn rjómi í þessari uppskrift en samt var þetta rjómakennt og gott. 

Við græjuðum nokkrar kjúklinga lundir með og bökuðum glútenfrítt brauð. Brauðið átti að vera naan brauð en breyttist óvart í eitthvað allt annað en mjög gott var það samt sem áður. Þetta brauð er auðvelt og gott með öllum mat. 


Rjómakennt spínat og avocado pasta
Spaghettí eða pasta, ég valdi GF spaghettí frá Semper (fæst í Bónus) vel hægt að nota hvaða pasta sem er. 

1 geiri hvítlaukur (segir maður örugglega ekki "geiri"?)
1 avocado
1 bolli ferskt spínat
1/4 bolli ferskt basil
1/2 bolli pekan hnetur (ég er með ofnæmi fyrir hentum svo ég valdi möndlur í staðin)
1 msk ferskur sítrónusafi
3/4 til einn bolli pasta vatn (tekið úr pottinum sem pastað er soðið í)
Salt og pipar eftir smekk

Sjóðið pastað eins og segir til um á kassanum. 
Meðan pastað er að sjóða er gott að búa til sósuna. Þegar öllum innihaldsefnum er búið að koma fyrir í blender eða matvinnsluvél er náð í vatnið í pottinn. Byrjið á smá vatni og setjið vatn þar til sósan er orðin rjómakennd og mjúk. 

Því næst er pastað sett í stóra skál og sósunni hellt ofan á, blandað varlega saman við. 

Þá er ekkert eftir nema skipta í skálar, rífa niður smá parmesan ost og njóta.

Brauð

250 gr glútenfrítt mjöl
1 dós grísk jógúrt
2-3msk agave sýróp

Öllu blandað saman og mótað í falleg naan brauð. bakað við 180-200° í um 10 mín.


Ekki láta ykkur bregða ef ykkar brauð lítur ekki út eins og mitt. Ég var í smá stund að hugsa um að henda minni blöndu því ég sá strax að eitthvað var mikið að. Ég var ekki heima þegar ég var að elda svo ég átti ekkert til að redda þessu. Ég hins vegar klístraði þessu á plötuna og þetta reddaðist svona líka vel. Svo ég mæli með að þið bakið alltaf brauðin sama hvað. Kannski verða þau bara glimrandi góð þrátt fyrir risa klúður. p.s þau verða líka stundum ógeðslega vond ... hef prufað oftar en einu sinni hahahah...




Engin ummæli :

Skrifa ummæli

Blog Design by Get Polished