mánudagur, 17. júní 2013

Kornflexkaka ! sjúklega sæt og góð

  Ég var að skoða bloggið hennar Evu Laufeyjar Kjaran í morgun og sá ljómandi girnilega köku, ég ELSKA Rice Krispies en þar sem ég má auðvitað ekki borða það ákvað ég að prufa að nota glútenfría kornflexið mitt... það er auðvitað ekki eins en ég kemst næst þessari svaka köku svona, uppskriftina fékk ég á blogginu hjá Evu Laufey en er búin að breyta henni smá þó svo að hún sé næstum eins.


 
Botn:
100 g smjör
100 g suðusúkkulaði
100 g Toblerone
4 msk síróp
5 bollar Korflex - glútenfrítt

Bræðið smjör við vægan hita, setjið súkkulaðið saman við og leyfið því að bráðna. Bætið sírópinu því næst og hrærið vel saman, passið að hafa vægan hita svo blandan brenni ekki. Þegar allt er orðið silkimjúkt þá er gott að blanda Kornflexinu út í. Hellið blöndunni í form og leyfið botninum að kólna í kæli í lágmark 15 mínútur. 

Krem og karamellusósa. 
Þeytið lítinn pela af rjóma og skerið tvo banana í litla bita. Setjið bananabitana ofan á kökubotninn og dreifið síðan rjómanum yfir. 

Karamellusósu. 

1 poki Daim (kurl)
1/2 dl rjómi

Bræðið daim kurlið við vægan hita í rjómanum. Setjið karamellusósuna í kæli í smá stund áður en þið setjið ofan á rjómann, það er mjög mikilvægt að sósan sé ekki oft heit því þá er hættan sú að rjóminn fari að leka til og það viljum við svo sannarlega ekki. Gott er að geyma kökuna í kæli í 30 mín - 60 mín áður en að hún er borin fram.

Ég skellti í 2 kökur - eina með Rice Krispies og eina glútenfría og fór með í mat til tengdó (jú jú alltaf í mat hjá tengdó) og sló þetta í gegn ... mæli hiklaust með þessu sem eftirrétt.

Njótið <3 Þórunn Eva

Engin ummæli :

Skrifa ummæli

Blog Design by Get Polished