mánudagur, 15. ágúst 2016

-Glútenfrí ískaka-




ó það sem ég elska ís, þið trúið því ekki hve heitt ég elskann.

Ég færði ís þráhyggju mína yfir á nýtt level þann 1. ágúst sl þegar ég bakaði afmælisköku fyrir móður mína. Þessi kaka er mjög einföld en er svolítið tímafrek. Ég áttaði mig ekki alveg á því og var hún því ekki eins falleg og vildi hafa hana því ég hafði ekki tíma til að bíða eftir að hvert lag myndi frjósa svo ég gæti sett næsta lag ofan á. Það var heldur ekki formleg myndataka svo vonandi fyrirgefið þið mér myndina sem fylgir hahah :)

En góð var hún, það er fyrir öllu ekki satt?

Botninn er brownie kaka. Annað hvort heimagerð eða úr pakka. Þið veljið glútenfría kostinn fyrir ykkur. Í bókinni minni er guðdómleg uppskrift af brownie en ég myndi helminga þá uppskrift fyrir þessa köku. Það er hægt að fá glútenfrí brownie mix orðið í mörgum búðum svo ef þið eigið ykkur ykkar uppáhalds, notið það.

Þið bakið brownie og kælið svo vel. Á meðan ég bakaði brownie og kældi bjó ég sjálf til ísinn. Það þarf ekki ef þú vilt frekar fara í búðina og kaupa ís, láta hann standa og bráðna, hella yfir og frysta svo en mér þykir meira heillandi að búa til ísinn sjálf. Ég setti svo bleikan matarlit útí ísinn.
Það sem er gaman við að gera sinn eigin ís er að þú getur bætt því sem þér þykir gott útí. Ég setti útí hann daim kurl og smá lakkrís duft frá Johan Bulow.

uppskrift af ís:

4 eggjarauður
1 egg
1/2 bolli sykur
5 dl rjómi
1 tsk vanilludropar

Þeytið rjóma, setjið í skál og geymið inní ísskáp.
Sykur, egg, eggjarauða og vanilludropar þeytt saman þar til úr verður kvoða. Blandið rjómanum útí og namminu, ávöstunum eða því sem þið viljið nota útí.

Því næst er ísnum hellt yfir kökuna eftir að hún hefur verið vel kæld og inní frysti með þessa dásemd. Gott er að leyfa ísnum að frjósa svolítið vel því annars er erfitt að setja næsta lag af kökunni ofan á.
Súkkulaði er næst á dagskrá, ég gæti bilast hvað þetta er gott, fæ vatn í munninn bara við að skrifa þetta. En allavega.

Uppskrift af súkkulaði:

3/4 bolli rjómi
1 bolli gott súkkulaði (glútenfrítt)

Rjóminn er settur í örbylgjuofn í smá stund og hitaður, því næst er súkkulaði skellt útí og hitað ögn lengur. Gott er að leyfa súkkulaðinu að bráðna svo smá stund á borðinu og hræra í annað slagið. Þegar súkkulaðið er bráðnað og þú ert búin að ná að blanda þessu vel saman leyfir þú blöndunni að kólna smá stund, hellir henni svo yfir ísínn svo úr verði flott súkkulaði yfir ísnum. (mikilvægt að kæla súkkulaðið aðeins áður en sett er á ísinn). Það má líka nota góða tilbúna súkkulaði sósu. Frysta aftur í dágóðan tíma svo hægt sé að setja næsta lag af kökunni vel og fallega á.

Hvítt krem á toppinn sem fullkomnar þessa köku svo sannarlega.

Uppskrift af hvítu kremi:

1 bolli rjómi
1/4 bolli flórsykur

1 tsk vanillusykur

Þetta er þeytt saman og sett ofan á vel frysta kökuna. Gott að frysta aftur eftir að kremið hefur verið sett á. Svo er bara að nota hugmyndaflugið með skreytingu ofan á kökuna. Ég mæli með að kakan sé gerð daginn áður en jafnvel fyrr. Ekkert mál að gera hana allt uppí 3 dögum áður en hún er borin fram. Ég setti nóakropp ofan á hjá mér.

Verði ykkur að góðu.


Engin ummæli :

Skrifa ummæli

Blog Design by Get Polished